Hagnýtar Ferðaupplýsingar 

Bólusetningar: Það er ráðlegt að fara í bólusetningar fyrir ferðalag til Kenía.
Hjá Heilsuveru fær viðkomandi sína bólusetningaráætlun.
Helst er bólusett við lifrarbólgu, typhoid salmonellu og stífkrampa.

Moskítóflugur og malaría: Það er ekki mjög mikið af moskítóflugum á þeim svæðum þar sem við ferðumst, en þó eitthvað. Sú tegund af moskítóflugum sem ber malaríu á milli manna lifir ekki á hálendi eins og í Nairobi eða Loitoktok þar sem við ferðumst mest. Það er því ekki þörf á að taka malaríutöflur á þeim svæðum. Tegundin getur þó fundist á láglendi eins og við ströndina. Líkurnar á að vera bitinn af sýktri flugu þar eru þó sáralitlar.

Tryggingar: Við ráðleggjum öllum að vera með ferðatryggingu og hafa trygginguna útprentaða.
Ferðatryggingar eru ekki dýrar og í þeim felst mikið öryggi.
Kreditkort bjóða einnig uppá tryggingar en mikilvægt að afla sér upplýsinga um þær áður en lagt er af stað.

Vegabréfsáritun: Íslendingar þurfa vegabréfsáritun til Kenía og fer umsókn fram á netinu. Hægt er að fá áritun með 7 daga fyrirvara og kostar hún USD 51. Ferðasýn leiðbeinir farþegum varðandi umsókn og fylgiskjöl.

Heilsugæsla og sjúkrahús: Það er mjög gott aðgengi að góðum sjúkrahúsum og læknum í Nairobi og við ströndina.
Þegar farið er í safari þá er það eins og í sveitinni á Íslandi, lengra á spítalann en samt alltaf hægt að keyra í bæinn.

Flug: Fyrir þær ferðir sem eru ekki með innifalið flug þá getum við komið því við að flugmiðar séu keyptir saman. Þannig getum við ferðast saman sem hópur ef þess er óskað. Það eru margar flugleiðir til Kenía. Það er ýmist hægt að fljúga til Evrópuborgar og gista eina nótt áður en haldið er áfram til Nairobi, eða fljúga í einum rykk frá Íslandi. Flugfélög sem bjóða upp á beint flug frá Evrópu til Nairobi eru t.d. British Airways frá London, Lufthansa frá Frankfurt, KLM og Kenya Airways frá Amsterdam, og Air France og Kenya Airways frá París. Beinu flugin eru um 8 til 9 tímar og býður þessi möguleiki upp á að flugin séu aðeins tvö. Það getur verið ódýrara að fljúga frá Íslandi með stoppi á Norðurlöndum og áfram með flugfélögum eins og Qatar airways, Turkish airways eða Emirates, sem taka eitt stopp á sínum heimavöllum áður en flogið er til Nairobi. Þá eru flugin þrjú.
Öll þessi flugfélög eru mjög góð með breiðþotum, nóg af mat og skemmtun í vélunum.

Gjaldeyrir: Gjaldmiðillinn í Kenía er Kenya shilling. Hann er mjög nálægt íslensku krónunni að gildi.
1000 Kenía skildingar eru um 1080 krónur.
Það er hægt að borga með korti í flestum búðum og á veitingastöðum.
Það er líka allstaðar gott aðgengi að hraðbönkum.