Golfferð 2.- 14. október.Verð 580.000 kr.

Safari 14.-17. október. verð 110.000 kr.

Kenía er stórkostlegt land að heimsækja. Í þessari ferð kynnumst við landi og þjóð á einstakan hátt. Við kynnumst höfuðborginni Nairobi, sem gjarnan er kölluð “græna borgin í sólinni”. Þar er að finna einstaklega fallega golfvelli, skemmtilega veitingastaði og kaffihús, flott söfn og magnað fjölbreytt mannlíf.  Við ferðumst einnig niður að Indlandshafinu og spilum golf á hinum glæsilega Vipingo Ridge golfvelli. 

Gisting í Nairobi er á Windsor Golf Hotel, sem er 5 stjörnu hótel, hannað í gömlum breskum herragarðsstíl með afrískum áhrifum. Á Windsor er að finna glæsilegan 18 holu golfvöll. Öll herbergin eru með frábæru útsýni yfir golfvöllinn. Á hótelinu er einnig líkamsræktraðstaða, upphituð sundlaug, nudd og snyrtistofa, flottur veitingastaður og bistro við sundlaugina. Í Vipingo á ströndinni er gist í glæsilegum golf villum í kringum golfvöllinn.

Við ferðina er hægt að bæta við safarí ferð. Þá heimsækjum við þjóðgarðana Amboseli og Tsavo West og gistum á fjögurra stjörnu safaríhótelum. Við skoðum einnig Loitoktok við rætur Kilimanjaro, hæsta fjalls Afríku.

Verð á golfferð 2. - 14. október: 580.000 kr á mann miðað við tvo í herbergi.
Innifalið: Flug frá Íslandi til Kenía. Öll gisting með morgunverði.
Tvær kvöldmáltíðir á veitingastöðum í Nairobi. Fjórir kvöldverðir á Vipingo. Aðgangseyrir á Karen Blixen safnið. Allur ferðakostnaður innanlands, m.a. lestarferð og innanlandsflug með golffarangri.  Níu golfhringir með caddy.
Verð án golfs: 490.000 kr.
Aukagjald fyrir einn í herpergi: 80.000 kr.
Ekki innifalið:
Vísaáritun. Hádegisverðir í Nairobi og í Vipingo, drykkir og viðbótargolf. Flutningsgjald á golfsetti.
Verð á viðbótar safaríferð 14.- 18. okt: 110.000 kr.
Innifalið:
Gisting með fullu fæði, safaríbílar, aðgangseyrir í tvo þjóðgarða.
Ekki innifalið: Drykkir.
Heildarverð fyrir báðar ferðir er 690.000 kr. á mann miðað við tvo í herbergi
Fararstjórar eru Þórunn Helgadóttir sem hefur búið og starfað í Kenía í 18 ár og maður hennar Samuel Lusiru Gona frá Kenía.

Ferðaáætlun:

Dagur 1 - Fimmtudagur 2. október - Brottför frá Íslandi
Flogið frá í Keflavík til Evrópuborgar, t.d. Kaupmannahafnar eða Oslo og þaðan til Qatar og áfram til Nairobi.

Dagur 2 - Föstudagur 3. október - Flug til Nairobi
Lending snemma að morgni. Dagurinn nýttur í slökun á Windsor.

Dagur 3 - Laugardagur 4. október - Golf á Windsor

Fyrsti golfhringurinn. Hægt er að taka daginn snemma og spila að morgni eða sofa út og spila seinnipartinn. Eftir golfleik er kjörið að njóta lífsins á veitingastaðnum sem er með útsýni yfir völlinn eða slaka á við laugina.

Dagur 4 - Sunnudagur 5. október - Golf á Windsor

Meira Golf! Hringur tvö á Windsor.

Dagur 5 - Mánudagur  6. október - Golf á Muthaiga

Nú prófum við Muthaiga golfvöllinn, glæsilegan völl í fögru skóglendi þar sem Kenya Open er haldið árlega. Eftir hádegi förum við í kaffitúr á Hótel Windsor þar sem 500 ekrur af kaffirækt eru á landareigninni. Allt kaffi á Windsor er því ræktað, þurrkað og ristað á staðnum. Við förum í skoðunarferð á kaffiakrana, fræðumst um kaffið, sjáum það ristað og smökkum.

Dagur 6 - Þriðjudagur 7. október - Golf á Muthaiga

Við tökum annann hring á hinum glæsilega Muthaiga golfvelli.
Eftir hádegi verður boðið uppá heimsókn í Harvestskólann sem Íslenska barnahjálpin rekur í Nairobi.

Dagur 7 - Miðvikudagur 8. október - Golf á Karen Golf Club

Við keyrum til suðurhluta Nairobi og prófum Karen golfvöllinn, sem er á landi Karenar Blixen. Þetta er mjög fallegur völlur sem ár eftir ár hefur verið kosinn besti golfvöllurinn í Nairobi.
Eftir golfið heimsækjum við Karen Blixen safnið sem er á heimili hennar þar sem Óskarsverðlaunamyndin Out of Africa var tekin upp.

Dagur 8 - Fimmtudagur 9. október - Golf á Windsor

Við tökum þriðja hringinn á Windsor. Frjáls dagur eftir hádegi.
Um kvöldið förum við út að borða á flottum veitingastað.

Keníska ströndin - Vipingo Ridge

Dagur 9 - Föstudagur 10. október - Vipingo
Vipingo Ridge völlurinn er staðsettur við Indlandshafsströndina og er einn af bestu völlunum í Kenía. Mikið dýralíf er í kringum völlinn og ekki óalgengt að sjá sebrahesta, antilópur og gíraffa.

Við tökum klukkutíma flug til borgarinnar Mombasa. Við skoðum þar gamla bæinn sem á sér mjög merkilega sögu. Þaðan keyrum við til Vipingo ridge sem tekur um einn og hálfan tíma.

Dagur 10 - Laugardagur 11. október  - Golf á Vipingo

Það er töluvert heitara í Vipingo en í Nairobi og því tökum við golfdaginn snemma. Seinnipartinn förum við á stjá og skoðum hvað Vipingo og ströndin hafa fleira upp á að bjóða.

Dagur 11 - Sunnudagur 12. október  - Golf á Vipingo

Það er tími fyrir annan hring á Vipingo um morguninn.

Dagur 12 - Mánudagur 13. október - Golf á Vipingo

Þriðji hringurinn á Vipingo Ridge.

Safaraíferð

Dagur 13 - Þriðjudagur 14. október - Tsavo West þjóðgarðurinn

Hér lýkur golfferð og safaríferð hefst. Annaðhvort er flogið til Nairobi og þaðan til Íslands eða haldið af stað snemma morguns í safaríferð fyrir þá sem það velja. Þá keyrum við frá Vipingo til Tsavo West.
Tsavo West er afskekktur, víðfeðmur og stórkostlega fallegur náttúrugarður. Við komum á hótelið um kl. 12.30 og borðum þar hádegismat. Um kl. 16.15 keyrum við til Mzima springs og förum þar í smá göngutúr. Þar má gjarnan koma auga á flóðhesta og krókódíla.

Dagur 14 - Miðvikudagur 15. október - Loitoktok

Ævintýrið heldur áfram. Við förum út úr þjóðgarðinum og keyrum til Loitoktok sem liggur í fallegri sveit við rætur Kilimanjaro. Þar býr Masaai ættbálkurinn. Við komuna þangað borðum við heimalagaðan hádegisverð í Oldoinyo house, nýbyggðu gistihúsi fararstjóranna, Þórunnar og Samúels. Eftir matinn heimsækjum við Harvest skólann í sem Íslenska barnahjálpin rekur í Loitokitok. Nemendur og starfsfólk skólans taka á móti okkur á sinn einstaka hátt. Að því loknu heimsækjum við Masaai heimili og fræðumst um einstaka menningu þeirra. Um kvöldið gistum við á fjögurra stjörnu safari hóteli.

Dagur 15 - Fimmtudagur 16. október  - Amboseli þjóðgarðurinn

Snemma morguns förum við inn í Amboseli þjóðgarðinn sem er við rætur Kilimanjaro. Hann er stundum kallaður fílahöfuðborg heimsins. Við tökum á safaríferð um garðinn og skoðum dýralífið. Í hádeginu er boðið upp á hlaðborð á hótelinu. Seinnipartinn förum við aftur á stjá og reynum að koma auga á ljón. Gist verður á safaríhótelinu um kvöldið.

Dagur 16 - Föstudagur 17. október  - Heimferð

Við höldum til Nairobi. Eftirmiðdagurinn er frjáls.
Flogið til íslands um kvöldið.

Dagur 17 - Laugardagur 18. október  - Lending á Íslandi

Golfið og vellirnir

Loftslagið í Nairobi er einstaklega milt og þægilegt, sem skapar kjöraðstæður fyrir golf. Borgin er í um 1600-1700 metra hæð og því verður ekki of heitt. Hitastigið í lok maí er frá um 15 gráðum á nóttunni og upp í 23-25 gráður eftir hádegi. Þunna loftið gerir það einnig að verkum að golfkúlan svífur að jafnaði um 10 metrum lengra.

Windsor völlurinn

er sérlega fallegur golfvöllur. Hann er par 72 og liggur í gegnum skóglendi og gamlar kaffiekrur þar sem er mikið fugla og dýralíf.
Apar eru fastagestir á vellinum. Skógurinn gerir það að verkum að næsta hola kemur aðeins í ljós við komu á næsta teig, fyrir utan holu 1 og 18 sem eru á opnum grænum bölum. Það eru vel yfir sjötíu glompur á vellinum.

Muthaiga golf klúbburinn

er í um 8 mínútna akstur frá Windsor. Þessi völlur er metinn besti völlurinn í Nairobi og þar er Kenya open golfkeppnin haldin árlega. Fyrstu 9 holurnar voru gerðar árið 1913 og árið 1926 var völlurinn stækkaður á 18 holur. Hann var svo endurhannaður á árunum 2004 til 2005 af suður-afríska arkitektinum Peter Matkovich. Muthaiga völlurinn liggur í gegnum Karura skóglendið en er opnari en Windsor völlurinn. Töluvert er af tjörnum og vötnum.

Karen Golf club

Völlurinn er í suðurhluta Nairobi og er staðsettur á fyrrum kaffiekrum Karenar Blixen, hins heimsfræga danska rithöfunds. Hún plantaði þar trjám sem enn er að finna á vellinum í dag. Karen Country Club var stofnaður árið 1937, sama ár og bókin Out of Africa kom út. Völlurinn er fjölbreyttur og skemmtilegur og einnig þekktur fyrir litskrúðug blómstrandi tré og runna. Hann liggur um votlendi þar sem er að finna mikið fuglalíf og litlar dikdik antilópur. Sjá má Ngong hæðir í bakgrunni.

Keníska ströndin - Vipingo ridge golf club

Vipingo Ridge völlurinn er staðsettur við strönd Indlandshafs og er metinn einn besti golfvöllurin í Kenía. Mikið dýralíf er í kringum völlinn og ekki óalgegt að sjá sebrahesta, antilópur og gíraffa.