Ferðasýn
Við hjá Ferðasýn ehf sérhæfum okkur í ferðum til Kenía. Tenging okkar við Kenía er sú, að í mörg ár höfum við staðið að rekstri skóla og hjálparstarfs í Kenía í gegnum Íslensku barnahjálpina. Í gegnum hjálparstarfið höfum við skipulagt fjölmargar ferðir til Kenía fyrir stuðningsaðila þar sem margir Íslendingar hafa fengið að upplifa töfra þessa lands.
Nú höfum við tekið enn stærra skref og opnað ferðaskrifstofuna Ferðasýn þar sem við munum bjóða upp á margvíslegar ævintýrferðir fyrir alla. Við erum full af tilhlökkun og spennt að kynna þetta fallega land fyrir enn fleirum.
Þórunn Helgadóttir er framkvæmdastjóri Ferðasýnar. Hún vann við kennslu í kvikmyndagerð í grunnskólum og starfrækti félagsmiðstöð fyrir fatlaða til ársins 2006 þegar hún flutti til Kenía og stofnaði þar hjálparstarf.
Árið 2007 giftist hún Samuel Lusiru Gona og saman hafa þau byggt upp hjálparstarfið í Kenía. Þórunn hefur unnið ötullega að málefnum starfsins og hefur skipulagt ferðir og verið leiðsögumaður fyrir fjölmarga hópa sem hafa komið til Kenía frá ýmsum löndum eins og Íslandi, Færeyjum, Danmörku Bandaríkjunum og Japan.
Samuel er stjórnarmaður Ferðasýnar. Hann var 18 ár í keníska sjóhernum og var einnig fyrirliði grashokkíliðs hersins. Samuel vann Afríkumeistara titilinn í hokkí árið 1998. Hann hætti í sjóhernum eftir að hann giftist Þórunni og saman hafa þau síðan byggt upp skóla í Kenía og hjálpað þúsundum barna að mennta sig. Síðan 2020 hafa þau ennig bæði verið að vinna á Íslandi og sinna starfinu í Kenía meðfram því.
Ingveldur Ýr Jónsdóttir er formaður Ferðasýnar. Hún er söngkona og kórstjóri að mennt. Hún er þekkt nafn í íslensku tónlistarlífi og hefur starfað sem söngkona, söngkennari og kórstjóri í ein 30 ár.
Hún er kórstjóri Spectrum, auk þess að hafa gegnt stjórnunarstörfum fyrir Félag íslenskra kórstjóra og Félags íslenskra söngkennara. Ingveldur er formaður Íslensku barnahjálparinnar og hefur margsinnis ferðast í þeim tilgangi til Kenía sem sjálfboðaliði. Hún er gift Ársæli Hafsteinssyni og hafa þau hjónin stutt við starf Íslensku barnahjálparinnar síðustu ár.
Ársæll Hafsteinsson er stjórnarmaður Ferðasýnar. Hann er menntaður íþróttakennari og lögfræðingur og starfaði um árabil sem stjórnandi í Búnaðarbankanum og Landsbankanum. Ársæll sinnti síðar ýmsum fjármálatengdum stjórnunarstörfum þar til hann fór á eftirlaun árið 2023 og gerðist frístundabóndi. Ársæll hefur staðið við bakið á Íslensku barnahjálpinni síðan 2018 og ferðast margoft til Kenía tengt þeirri ástríðu.
Gunnhildur Gunnarsdóttir er fararstjóri hjá Ferðasýn. Hún fór fyrst til Kenía árið 2018 og kynntist þar starfi Íslensku barnahjálparinnar og heillaðast svo mikið af starfinu að hún ákvað að taka virkan þátt í því og er í stjórn Íslensku barnahjálparinnar. Hún er Mag. Phil. frá Kaiser - Franzens Universität Graz og löggiltur leiðsögumaður. Gunnhildur er fædd og uppalin í Vesturbænum en eftir stúdentspróf flutti hún til Graz í Austurríki þar sem hún stundaði háskólanám.
Gunnhildur fluttist til Vínarborgar og eignaðist litla dóttur og tók þar leiðsögumannaprófið árið 1998. Gunnhildur skipulagði ýmisskonar ferðir þangað bæði fyrir Ameríkana, Skandinava sem og Íslendinga. Einnig starfaði hún við fararstjórn í hinum ýmsu löndum Evrópu: Austurríki, Þýsklandi, Slóvakíu, Tékkland, Ungverjalandi, Slóveníu, Króatíu, Tyrklandi, Grikklandi, Ítalíu og Spáni.
Eftir 18 ár í Austurríki, flutti hún til Malasíu þar sem yngri dóttir hennar fæddist árið 2006. Eftir fæðingarorlof, byrjaði Gunnhildur að skipuleggja ferðir til Malasíu og í Suð - Austur Asíu og notaði einnig tækifærið til að ferðast mikið um álfuna. Hún hefur verið með hópa t.d. í Malasíu, Borneó, Singapore, Laos, Vietnam, Hong Kong, Kína, Tælandi, Japan, Filipseyjum, Suður - Kóreu, Sameinuðu Furstdæmunum, Katar, Ameríku, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Frönsku Pólynesíu. Undanfarin ár hefur hún einnig farið til Afríku með hópa, m.a. til Suður - Afríku og Kenía þar sem hún starfar einnig sem sjálfboðaliði.
Eftir 21 ár í útlöndum flutti Gunnhildur aftur heim til Íslands og samhliða fararstjórn, hefur Gunnhildur unnið sem menntaskólakennari, kennslustjóri Lýðskólans á Flateyri og er einnig markþjálfi og teymisþjálfi.